Og þá bombuðu þeir Beirút...
...einmitt þegar ég var búin að ákveða að skreppa þangað niðreftir. Býst við að ferðaáætlunin verði endurskoðuð, að við Hildur leggjum leið okkar frekar eitthvað annað en til Miðausturlanda eins og ástandið er þar núna. Býst við að skíðasvæðin sem við Stefán vorum að láta okkur dreyma um séu hugsanlega ekki til lengur. En Stebbi: hvað segirðu um Íran? Eða Rússland - Elbrus? Má ekki vera of auðvelt, of aðgengilegt...
Hefur lengi langað til Mið-Asíu, til -istanlandanna. Skoða ævaforna markaði í Samarkand, borða kasakstönsk svið, reika stefnulaust um fjallahéruðin og heimsækja íshöllina hans Túrkmenbasi í eyðimörkinni, föður allra Túrkmena og einræðisherra í Túrkmenistan, og kannski ná mér í eintak af ljóðabókinni hans, sem er víst skyldueign á öllum túrkmenskum heimilum, hjá pöplinum jafnt sem prúðbúnu fólki.
En að öðrum ferðaplönum og nær í framtíðinni: hverjir eru tilkippilegir í að koma á Snæfjallaströnd um Verslunarmannahelgina? Líklega tveggja til þriggja daga gönguferð um tilkomumikla eyðisveit.
Og þið sem hafið tíma, og þið hin líka sem ekki þykist hafa tíma: farið og sjáið landið sem drukknar áður en vatni verður hleypt á Hálslón. Og ekki, alls ekki, láta útsýnispall Landsvirkjunar nægja og segist svo hafa séð svæðið. Hann sýnir engan veginn rétta mynd af landinu sem fólk hefur verið að berjast fyrir.
Má vera að þið hafið víða komið og margt séð, en það er undarlega tragísk en merkileg upplifun að ganga um tilvonandi vatnsbotn. Fyrir utan það að sem upplýstur Íslendingur og náttúruunnandi rann mér blóðið til skyldunnar að hafa séð landið sem ekki verður lengur til sýnis en til haustsins. Og svæðið er fallegt, það eru engar ýkjur. Sá (sú) sem lætur þau orð falla að þarna sé "engin sérstök náttúrufegurð", - hann (hún) hefur ekki séð það og talar af vítaverðri vanþekkingu.
1 Comments:
Held vid setjum Midaustulønd á ís í smá tíma. Væri til í Rússland og ef allt klikkar thá bara Búlgaríu.
Skrifa ummæli
<< Home