sunnudagur, október 30, 2005

Góðir dagar í Kaupmannahöfn með vinum og kunningjum.
Við vorum í hrekkjavökupartíi í gær, vel mætt og margt óhuggulegt á sveimi: skeggjaðar brúðir, dauðar geishur og dansandi vélmenni. Ég mætti sem fallinn engill. Búningurinn var allavega nógu góður til að skiljast án þess að fólk þyrfti að spyrja. Það heyrði ég þegar ég var á leiðinni á klósettið og labbaði fram hjá tveimur strákum sem voru að spjalla saman og annar þeirra sagði stundarhátt við hinn: "hei, þetta er engill, ég ætla sko að taka hana í gegn á eftir!" - Það er þægilegt að eiga íslenskuna sem leynimál í útlöndum, maður má bara ekki gleyma sér og halda að enginn skilji mann - sérstaklega í Íslendingapartíi! Svo er íslenskan ekkert leynimál í Kaupmannahöfn, ef út í það er farið...

Við hittum Ágúst Elvar og Hjölla á spilakvöldi á föstudaginn, spiluðum popppunkt fram á nótt. Ég stóð uppi sem tapari kvöldsins, eftir allar mögulegar liðasamsetningar var ég sú eina sem hafði alltaf verið í tapliðinu. Þetta orðspor var enn frekar staðfest þegar ég tapaði ítrekað í fussballspili. En skammarverðlaunin voru ekki af verri endanum: Rut fann ólæst hjól sem lá í lamasessi úti á miðri götu. Ég gerði við það í snarhasti og hjólaði á því heim. Ef það var eigandinn sem henti því frá sér ólæstu, liggjandi úti á miðri götu, þá er hann með því búinn að afsala sér eignarhaldi og skilur það eftir fyrir vegfarendur að taka. Ef það var þjófur sem skildi það eftir úti á miðri götu, þá hefði það hvort eð er aldrei komist aftur til réttmæts eiganda. Þannig að ég hef ekkert samviskubit.
Þetta verður því gestahjól, fyrir gesti og gangandi á Varmlandsgade.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home