Laufin fallin af trjánum og Herdís kemur feit af fjalli.
Góðar sögur eftir sumarið, Ísland og Grænland.
Fyrsta vetrarferðin þegar farin: snjóa hefur ekki leyst í Kulusuk frá því 19. september og Tasiilaq-fjörðinn er að leggja, smábátarnir eru líklega þegar fastir í prísundinni.
Og sumarferð vetrarins framundan: stuttbuxnaveður í Austur-Afríku.
Margs er að minnast, sumir hafa kannski heyrt sögurnar áður.
Eins og söguna af því þegar vaðið okkar til að komast til baka í kampinn var að hverfa undir flóð (öfugsnúið að vera fjallaleiðsögumaður við sjávarmál). Hefðum ekki mátt vera kortéri seinna á ferðinni, þá hefðum við mátt bíða eftir að fjaraði út, - nema ef við hefðum sundriðið ána í þröngum stokki rétt við jökulsporðinn sem var um 400-1200 metra frá sjávarmáli (eftir sjávarföllum). Ætli við höfum ekki verið um 35 mínútur í ánni, - guði sé lof fyrir neoprensokka!
Eða söguna af því þegar einni konunni í hópnum skrikaði fótur í snarbrattri skriðuhlíð og fór af stað í heljarinnar stökkum með hauslendingu á milli. Miðað við áverkaferlið bjó ég mig undir að búa um beinbrot, meta hryggáverka og kalla út þyrlu, - en hún slapp með skrámur. Bakpokinn tók af henni fallið. Kraftaverkið var að allt í bakpokanum: sérvitringaljósmyndadót, sjónaukinn og gleraugun, allt þar slapp skrámulaust.
Eða söguna af því þegar farið okkar til baka til Kulusuk var næstum strandað í fjörunni, tveggja tonna hlunkur sem settist á stein... - allir út að ýta! Stormur í aðsigi, rétt til að auka á spennuna...
Og þessar þrjár sögur gerðust þrjá daga í röð í sömu ferðinni... never a dull moment!
Önnur yndisleg augnablik voru:
- refaskoðanir á Grænlandi. Við sáum þá á öllum tjaldsvæðunum þegar húma fór að kveldi. Ótrúlega litlir og kvikir - og þjófóttir. Ekki skilja eftir sokka eða þvottapoka til þerris á steini... eða göngustafi með korkhandföngum, gönguskó úr leðri... og sérstaklega ekki neitt matarkyns!
- rjúpurnar sem komu í heimsókn þegar við vorum komin í pokana. Þær rúntuðu um og duttu um tjaldstög og voru með læti og asnagang.
- hitabylgja á Grænlandi! Hefði ekki lifað af þá ferð án stuttermabols og sólgleraugna. Þegar er gott veður á Grænlandi þá er óendanlega fallegt veður. Og það endist! Sama veðurmynstrið oft í amk viku í einu.
- sveppatínsla í Þórsmörk. Fallegasti dagur sumarsins, afslöppun í fjölskylduferð fyrir Allibert. Yngsti túristinn sem ég hef verið með í ferð: sex ára pjakkur.
- grill í hellinum í Tjaldgili. Hafiði komið þangað? Þvílíkur draumastaður! Þetta helliskvöld var ævintýraveisla. Við áttum Tjaldgil fyrir okkur í hæglætisveðri, síðasta kvöldið í ferð, hefði ekki getað endað betur. Góð ferð það.
- og svo var ég líka ólýsanlega glöð að losna við síðasta hópinn minn þetta sumarið, algjör martröð. Snobblið sem ekki átti inni fyrir því - faux bourgeois, þverhausar, eiturtungur og aumingjar til göngu. Við löbbuðum Glámuhringinn í Skaftafelli pásulítið á tæpum níu tímum, eðlilegir hópar labba hann á 6 tímum, 7 ef er gott veður og þau vilja slóra. Margar sögur af þessum hópi, ætla ekki að segja þær hér... úffff...
Og nú eru það ný ævintýri sem bíða mín. Ný heimsálfa með framandi fólki og skrýtnum skepnum. Ný ævintýri og nýjar sögur bætast í safn hinna gömlu.
Reyni að standa mig betur í fréttaflutningi. Fylgist með þessari síðu á næstu vikum.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home