föstudagur, nóvember 04, 2005

Að vera eða vera ekki tigulegur a hahæluðum skom

Mér varð rölt inn í skóbúð á Strikinu fyrir nokkrum dögum, drifin áfram af krónískri kaupgleði og glysgirni. Fegurð og fullkomnun mannsandans opinberuðust mér í formi glitrandi glimmers, hárra hæla og buxnafaðmandi stígvéla og ég leið áfram í leiðslu fram hjá hillu eftir hillu af fallegum hlutum.
Ég sá mig fyrir mér í háhæluðu brúnu rúskinnsskónum sem eru opnir í tána, í glitrandi fagurbogapilsi sem bylgjast eins og um ævintýraprinsessu þegar ég svíf um dansgólfið og svo myndi ég ösla snjóinn í svörtu leðurstígvélunum sem lyppast niður um ökklana en verja mig samt gegn kulda og bleytu þegar ég er búin að skilja öskubuskuskóinn minn eftir fyrir prinsinn.

Það er ekki það að mig vanti skó. Ekki eins og börnin í Afríku vantar skó. Samt vantar mig skó. Ég á nefnilega ekki skóna sem mig langar í.

Nú er það nú samt svo það eru meiri líkur á því í náinni framtíð að ég hlaupi um skólaus með börnunum í Afríku heldur en að svífa yfir dansgólf á háum hælum í prinsessukjól.

Fyrir nú utan það að ég svíf yfirleitt ekki tignarlega um dansgólf yfir höfuð, hvað þá fótsár í fallegu háhælaskónum...
Þannig að ég ætti nú að vera skynsöm og spara fimmþúsundkallinn sem háhæluðu skórnir kosta og leggja hann frekar upp í safarí í Tansaníu.
Eða hafa smá mannúð í hjartanu og gefa fimmþúsundkallinn til að fimmhundruð afrísk börn geti fengið hreint vatn án þess að þurfa að sækja það margra kílómetra leið.

Hversu oft hefur maður ekki séð myndirnar í sjónvarpinu? Svöngu börnin með moskítóflugurnar á augnhárunum... og maður hugsar “æ, ég á ekki pening, ekki akkúrat núna, ekki núna þegar ég er svo blönk...” og svo fer maður samt og kaupir sér háhælaða skó sem maður notar ekki einu sinni af því maður er ekki eins tígulegur og maður hélt.

Má ég þess vegna skora á ykkur að fresta næsta skópari og kíkja á síðu Rauða krossins þar sem stendur Styrktarfélagi. Það er hægt að styrkja Rauða krossinn fyrir svo lítið sem 250 ISK á mánuði. Það er eins og einn snakkpoki. Hvenær hafið þið verið svo fátæk að þið neituðuð ykkur um einn snakkpoka? Eina sem þarf er að nenna að draga fram kreditkortið og pikka inn númerið.
Og má ég svo skora á ykkur að þið komið áskoruninni á framfæri við þá sem ekki lesa bloggið mitt?

Takk fyrir, - fyrir hönd svöngu barnanna í Afríku sem myndu gjarna vilja svona eins og einn snakkpoka á mánuði.

2 Comments:

At 6:51 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

þú hefur svo sannarlega rétt fyrir þér, bara ef heimurinn ætti fleiri ljósálfa!

 
At 1:50 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Alors, on donne des nouvelles en islandais comme ca ? Et ceux qui n'ont pas accès à cette magnifique langue dans toutes ses subtilités ? J'espère que tu vas bien. Je t'embrasse, Quentin.

 

Skrifa ummæli

<< Home