laugardagur, júlí 29, 2006

Hlaut að koma að því

Jæja, þá byrjar fjörið. Frétti af því að Séð og heyrt hefði verið að grennslast fyrir um hagi mína...
Ég varð miður mín en Ólöf hló bara þegar ég hringdi í hana. Vissulega er þetta sjálfskaparvíti, ég var bara síðust til að átta mig á því að svona væri komið. Mér finnst ég ekkert merkilegri en áður en ég fór að birtast á skjánum, ég sé sjaldnast sjálfa mig í sjónvarpinu. Sit bara við borð í lokuðu herbergi og les texta af skjá og gantast við myndstjórnina; þannig er þetta, ekki neitt stórfenglegra eða flóknara en svo. Fréttalestur er líklega með ofmetnari störfum, - eins og flugfreyjustörf, sem hafa yfir sér einhvern ævintýraljóma en eru ekki annað en erfið þjónustustörf með þotuþreytu og bjúg í kaupbæti. (Að öðru leyti en því að störfin eru bæði ofmetin er varla annað sameiginlegt með þeim reyndar.)

En athugið að það eru skýr skil á milli fréttalesturs og fréttamennsku. Ég væri til í að vera bara fréttamaður, það er rosalega skemmtilegt, - ég þarf ekki að vera fréttalesari. En samt segir maður ekki nei. Þetta er auðvitað stöðuhækkun á vinnustaðnum, þekki fáa sem afþakka slíkt á sínum vinnustað. Það er bara verst að á mínum vinnustað þýðir stöðuhækkun að maður fórnar hluta af einkalífinu.

föstudagur, júlí 28, 2006

Öfgafullir umhverfisterroristar...

... eða friðsamir mótmælendur?
Það fer eftir því hver segir fréttina.
Alveg hreint ótrúlegt hversu mikið vald fréttamönnum er selt í hendur. Að móta unga og óharðnaða huga með áróðri og afturhalds-isma.

Það er varla til neitt sem heitir hlutlaus fréttamennska. Allavega verða aldrei allir sammála um hvar á skalanum hlutlausa fréttamennskan liggur. Ef þú spyrð þann sem hallast til hægri, þá er hans skilgreining á hlutleysi hægra megin við miðju og öfugt.

Ég er samt svo ónýt í að hafa skoðanir og sérstaklega í að rökstyðja þær. Of póstmódernísk til að geta aðhyllst einar öfgarnar og ekki hlustað á hinn málstaðinn. Mér finnst fólk yfirleitt hafa nokkuð til síns máls.
Ætli ég eigi nokkurn tíma eftir að ná langt sem fréttamaður? Er ekki nógu góð í að þræta og reka vitleysu ofan í fólk, það er minn helsti akkilesarhæll í þessu starfi.
En ég lúkka á skjánum, að því er mér er sagt. Og það er jú það sem skiptir máli!!!

Hefði einhver einhvern tíma spáð mér því að ég ætti eftir að komast áfram í lífinu á því að vera snoppufríð, þá hefði ég nú skellt upp úr.

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Og þá bombuðu þeir Beirút...

...einmitt þegar ég var búin að ákveða að skreppa þangað niðreftir. Býst við að ferðaáætlunin verði endurskoðuð, að við Hildur leggjum leið okkar frekar eitthvað annað en til Miðausturlanda eins og ástandið er þar núna. Býst við að skíðasvæðin sem við Stefán vorum að láta okkur dreyma um séu hugsanlega ekki til lengur. En Stebbi: hvað segirðu um Íran? Eða Rússland - Elbrus? Má ekki vera of auðvelt, of aðgengilegt...

Hefur lengi langað til Mið-Asíu, til -istanlandanna. Skoða ævaforna markaði í Samarkand, borða kasakstönsk svið, reika stefnulaust um fjallahéruðin og heimsækja íshöllina hans Túrkmenbasi í eyðimörkinni, föður allra Túrkmena og einræðisherra í Túrkmenistan, og kannski ná mér í eintak af ljóðabókinni hans, sem er víst skyldueign á öllum túrkmenskum heimilum, hjá pöplinum jafnt sem prúðbúnu fólki.

En að öðrum ferðaplönum og nær í framtíðinni: hverjir eru tilkippilegir í að koma á Snæfjallaströnd um Verslunarmannahelgina? Líklega tveggja til þriggja daga gönguferð um tilkomumikla eyðisveit.

Og þið sem hafið tíma, og þið hin líka sem ekki þykist hafa tíma: farið og sjáið landið sem drukknar áður en vatni verður hleypt á Hálslón. Og ekki, alls ekki, láta útsýnispall Landsvirkjunar nægja og segist svo hafa séð svæðið. Hann sýnir engan veginn rétta mynd af landinu sem fólk hefur verið að berjast fyrir.
Má vera að þið hafið víða komið og margt séð, en það er undarlega tragísk en merkileg upplifun að ganga um tilvonandi vatnsbotn. Fyrir utan það að sem upplýstur Íslendingur og náttúruunnandi rann mér blóðið til skyldunnar að hafa séð landið sem ekki verður lengur til sýnis en til haustsins. Og svæðið er fallegt, það eru engar ýkjur. Sá (sú) sem lætur þau orð falla að þarna sé "engin sérstök náttúrufegurð", - hann (hún) hefur ekki séð það og talar af vítaverðri vanþekkingu.

föstudagur, júlí 14, 2006

Og já, ég fór víst á Hróarskeldu þarna inn á milli...

Myndirnar hennar Rutar segja flest sem segja þarf: sólgleraugu, stórstjörnur og kassagítarpartí á tjaldstæðinu, bikiníveður og baðströnd, enn og aftur guði sé lof fyrir blaðamannapassa og hrein klósett sem ekki þarf að bíða eftir. Kom samt ekki í veg fyrir að ég fengi saurgerlasýkingu á ökklana... (Danskir fjölmiðlar gerðu því í skóna að í rykinu sem blés upp af því allt var svo þurrt væri hættulega hátt hlutfall saurgerla af því fólk pissar þarna í hvert horn og holu, talsmaður Hróarskeldu vildi nú ekki viðurkenna það samt.) Saurgerlasýkingin var enn að hjaðna í flugvélinni á leiðinni til Grænlands og rann svo bara saman við moskítóbitin hvort eð er...

En já, Hróarskelda. Bestu tónleikarnir? Mmmm... Fyrir mér var nefnilega enginn hápunktur, eitthvað sem stendur upp úr. Fullt af frábærri tónlist (Arctic Monkeys, Strokes, Morrissey), uppgötvunum (Wolfmother, My midnight creeps) og gömlum og góðum kóreógröfuðum sýningum sem alltaf er hægt að hafa gaman að (Franz Ferdinand). Missti því miður af allri dagskrá fimmtudagsins, var að ráfa um á tjaldstæðinu og leita að kampi K og andlitunum á Rut og Stebba meðan Axl Rose söng sitt síðasta. Komst því ekki á Sigur Rós eða Deus, sem hefði verið gaman.

Takk y'all, takk fyrir gítarpartíin, takk fyrir kossaflensið, takk fyrir tónleikastemninguna, takk fyrir að vera stjörnur og hjálparhellur í Íslandi í dag, takk fyrir mig!
Svo er það bara 5.-8. júlí á næsta ári!

þriðjudagur, júlí 11, 2006

Innilokuð í klakahröngli

Óskaði þess heitast af öllu að ég kæmi ekki heim frá Grænlandi með nýja sögu sem tæki hinum fram. Ætla ekki að dæma um hvað er versta staðan að vera í en vona að ég lendi aldrei í þessu líku aftur.

Komum til Kuumiut á þriðjudag og áttum að fara áfram til Sermiligaq á föstudaginn. Í staðinn vorum við hins vegar lokuð inni og horfðum á Angmassalikfjörðinn pakkast af rekís. Það var reynt alla helgina að finna einhverja glufu en allt kom fyrir ekki. Endalaust var reynt og alltaf sátum við og biðum og vonuðum. Mesti ís í manna minnum á þessum árstíma. Þessi vetur kom öllum á óvart mitt í hlýindabombunni og gróðurhúsaáhyggjum, ísinn lá lengi víðast hvar og virðist af nógu að taka ennþá.

Það veit það enginn fyrr en hann reynir hvað það er lýjandi að sitja með sjö túrista sem verða vonsviknari með hverri fréttinni af misheppnuðum bátsferðum og hverri nóttinni sem við þurfum enn að húka á sama tjaldstæðinu þegar við ættum að vera komin allt annað að sjá stórmerkilega hluti í þessu sérstaka landi sem er þar að auki eitt dýrasta ferðaland í heimi. Afar þreytandi að þurfa hvað eftir annað að yppa öxlum og segja svona er þetta bara, hef enga hugmynd hvenær fjörðurinn opnast.
Og þó að fólk reyni að halda sönsum og halda andlitinu þá er allt of auðvelt að fylgjast með því hvernig gremjan byggist upp út af minnstu smáatriðum. Allir vankantar í mat eða aðbúnaði magnast upp og maður hugsar með hryllingi til þess ef allt springur og andrúmsloftið eitrast fyrir alvöru.

Þegar við vöknuðum í morgun var fjörðurinn pakkaður sem aldrei fyrr. Þá var útséð með bátsferðir en sem betur fer var hægt að troða einni skotferð inn í þéttpakkaða dagskrá þyrlunnar. Afar svalt samt að fljúga í þyrlunni yfir hafísinn, þó að vissulega væri ergilegt að sjá hvað þetta er stutt og lítið mál, - 10 mínútur í þyrlu, ef bara hefði verið hægt að brjótast í gegnum ísinn á föstudaginn. Eða laugardaginn. Eða sunnudaginn. Eða í dag.

Rétt náðum flugvélinni heim til Íslands og það var bara af því að það var seinkun á henni út af þoku í Kulusuk í morgun. Beint úr þyrlu í flugvél, þannig að eina sem fólkið fékk að sjá af Grænlandi var þetta eina tjaldstæði við Kuumiut sem allir voru tilbúnir að gubba á fyrir rest. Ekki hamingjusömustu ferðamenn sem ég hef skilað af mér, en jæja, lítið við því að gera...