Hlaut að koma að því
Jæja, þá byrjar fjörið. Frétti af því að Séð og heyrt hefði verið að grennslast fyrir um hagi mína...
Ég varð miður mín en Ólöf hló bara þegar ég hringdi í hana. Vissulega er þetta sjálfskaparvíti, ég var bara síðust til að átta mig á því að svona væri komið. Mér finnst ég ekkert merkilegri en áður en ég fór að birtast á skjánum, ég sé sjaldnast sjálfa mig í sjónvarpinu. Sit bara við borð í lokuðu herbergi og les texta af skjá og gantast við myndstjórnina; þannig er þetta, ekki neitt stórfenglegra eða flóknara en svo. Fréttalestur er líklega með ofmetnari störfum, - eins og flugfreyjustörf, sem hafa yfir sér einhvern ævintýraljóma en eru ekki annað en erfið þjónustustörf með þotuþreytu og bjúg í kaupbæti. (Að öðru leyti en því að störfin eru bæði ofmetin er varla annað sameiginlegt með þeim reyndar.)
En athugið að það eru skýr skil á milli fréttalesturs og fréttamennsku. Ég væri til í að vera bara fréttamaður, það er rosalega skemmtilegt, - ég þarf ekki að vera fréttalesari. En samt segir maður ekki nei. Þetta er auðvitað stöðuhækkun á vinnustaðnum, þekki fáa sem afþakka slíkt á sínum vinnustað. Það er bara verst að á mínum vinnustað þýðir stöðuhækkun að maður fórnar hluta af einkalífinu.
